Í lok dagsins

Áhugavert er að fylgjast með hvert hin svokallaða málefnalega umræða andstæðinga stækkunar álversins er að fara.  Allt þeirra púðar fer nú í að væla yfir hvaða aðstöðu þeir eru í.  Ýmsir frasar hafa fallið og misgóðir eins og :  hnífur í kjarnorkustríði, Davíð og Golíat, króna á móti seðli, áhugamenn á móti atvinnumönnum og svo framvegis.  Er þetta virkilega málefni Sólarmanna.  Eru ekki bæði Alcan og Sólarmenn að reyna að veita upplýsingar þannig að Hafnfirðingar geti metið kosti og galla þess að stækka álverið í Straumsvík.  

Það er einnig ótrúlegt að þeir geti ekki borið virðingu fyrir samtökum eins og Hagi Hafnarfjarðar.  Hvernig þeir tala um þau samtök er til skammar.  Það er lágmark að bera virðingu fyrir málstöðum sem þessum þó maður sé ekki sammála þeim. 

Ég legg til að menn haldi sér við það sem skipti máli og upplýsi almenning með staðreyndum og réttum upplýsingum.  Það gagnast engum að vera í þessu málþófi.

 

 

  


Fasteignir á Völlunum

Sól í Straumi hefur haldið  því fram að fasteignaverð á Völlunum muni hríðlækka ef álverið verður stækkað.  Ef svo er þá skil ég ekkert í þessari frétt  í Fjarðarpóstinum í dag.

 

Mikil eftirspurn eftir lóðum

 

"Töluverð sala hefur verið á nýjum íbúðum á Völlum og samkvæmt upplýsingum frá fasteignasölunni Ási eru nú minna en 30 íbúðir enn  óseldar, allt stórar íbúðir"

 

Mjög einkennilegt að fara að fjárfesta í eign á svæði þar sem verð á að fara að hríðlækka.

Menn eru kannski ekki almennt að hlusta mikið á Sólarmenn í dag.


Umræða á villigötum


Umræður um áhrif loftmengunar frá álverinu í Straumsvík hafa á undanförnum dögum lent á miklum villigötum. Dæmi um það eru þær ásakanir um að losun brennisteinsdíoxíðs sé skaðleg fyrir fólk í nágrenni verksmiðjunnar en slíkar fullyrðingar eiga ekki við nein rök að styðjast, eins og sérfræðingur Umhverfisstofnunar hefur raunar staðfest í fjölmiðlum (sjá hér).   Ef niðurstöður loftgæðamælinga í nágrenni álversins eru skoðaðar kemur í ljós að styrkur brennisteinsdíoxíðs í lofti var á síðasta ári að meðaltali um 0,56 míkrógrömm á rúmmetra, sem er rúmlega 200 sinnum minni en það magn sem þykir skaðlegt.


Á meðfylgjandi súluriti (smelltu á myndina til að stækka hana) má sjá hver styrkur þessara efna í andrúmslofti var árið 2006, hve mikill hann gæti orðið eftir stækkun álversins miðað við núverandi losun og hver hann gæti orðið þegar markmiðum fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu verður náð. Rauða línan efst á myndinni sýnir hins vegar hver heilsuverndarmörkin eru og það ætti hverjum manni að vera ljóst, að styrkur brennisteinstdíoxíðs í lofti í nágrenni álversins er langt frá því að geta talist skaðlegur.


Raunar má benda á, að mælingar á styrk brennisteinsdíoxíðs í lofti í nágrenni álversins sýna ekki hæstu gildin þegar vindur stendur af álverinu og færa má rök fyrir því að helstu áhrifavaldarnir séu aðrir en álverið. T.d. er styrkur brennisteinsdíoxíðs í lofti mestur þann 1. janúar ár hvert, um það leyti sem íbúar í nágrenni álversins eru að skemmta sér við að skjóta upp flugeldum í öllum regnbogans litum.

 Greinin kom á www.straumsvik.is


Hver var tilgangur Kompásar um álverið í Straumsvík

Margar spurningar sitja eftir í höfði manns eftir að hafa horft á þátt Kompásar með yfirskriftinni "Um stækkun álversins".  Í kynningu kom fram að það ætti að fjalla um stækkun álversins frá báðum hliðum.  Fljótlega kom í ljós að það var ekki tilgangurinn.  Meiri hluti þáttarins fór í að ræða um starfsmannastefnu fyrirtækisins og umhverfismál með rangfærslum.  Sem hlutlaus áhorfandi hefði maður ekki orðið mikið fróðari um kosti og galla fyrirhugaðar stækkunar álversins.  Maður sat uppi með einhliða umræðu um hvernig fyrirtækinu er stjórnað og starfsmannastefnu þess.  Tekin eru viðtöl við starfsmenn sem hafa yfirgefið fyrirtækið ósáttir og virðast eiga eitthvað óuppgert við það.  Hvað með alla hina sem hafa starfað þarna í langan tíma og líkar vel.  Af hverju fáum við ekki þeirra hlið málsins.  Nei, heldur fá fullyrðingar eins og að Isal "falsi" upplýsingar um umhverfismál til að líta sem best út.  Hvernig dettur mönnum í hug að birta svona án þess að grafast fyrir um málið.  Isal mun aldrei geta "falsað" þessar upplýsingar.  Umhverfisstofnun fer yfir allar mælingar hjá Isal ásamt því að kvarða tæki sem notuð er til mælinga.  Isal er vottað af umhverfisstaðlinum ISO 14001 þar sem reglulega eru úttektir á fyritækinu og því vel fylgst með.  

Annað dæmi er um fréttaflutningin því einu myndirnar af fyrirtækinu voru birtar þegar kerleki var.  Mengunin sem var þá sýnd gefur ekki rétta mynd af álverinu.  Af hverju er það ekki sýnt eins og það lítur vanalega út.  

Fréttamaður Kompásar notaði svo allan sinn tíma til að drita sömu spurningum á Rannveigu þar sem spurt var um starfsmannastefnuna og vothreinsun.  Hversu oft þurfti hún að svara þessu svo fréttamaðurinn myndi ná þessu.   Nei það var eingöngu einn tilgangur og það var að ná höggstaði á fyrirtækið. 

Svona fréttaflutningur er til háborinnar skammar og gefur áhorfendum stöðvar 2 kolranga mynd af álverinu.  Á fólk ekki skilið að sjá hlutina eins og þeir eru.  Að lágmarki skal gæta jafnræðis og forðast einhliða umræður.  

Hafnfirðingar eru að fara að taka stóra ákvörðun eftir rúmar tvær vikur og þeir eiga ekki skilið svona fréttaflutning.  Þeir eiga skilið að taka ákvörðun út frá kostum og göllum fyrirhugaðar stækkunar og út frá staðreyndum og réttum upplýsingum.

 Það er alveg ljóst að ekki fengu þeir neinar upplýsingar um fyrirhugaða stækkun frá Kompási.


Losun á brennisteinsdíoxi (SO2) frá álverinu í Straumsvík

Búið er að birta alls konar rangfærslur um losun á SO2 frá álverinu síðustu daga.  Það er  búið að halda því fram að allir Hafnfirðingar séu í hættu og ekki sé hægt að vera með börnin úti að leika. 

Hins vegar er það þannig að engum stafar hætta af SO2 frá álverinu.  Við mælingar sem gerðar eru á Hvaleyrarholti af Umhverfisstofnun Ríkisins kemur fram að meðaltal er einöngu um 2% af heilsuverndarmörkum.  Hæstu topparnir eru um 7-8% og þá stendur vindur ekki frá álverinu í Straumsvík. 

 

 


Úrslitaleikur í bikarkeppni karla

Ég var staddur á úrslitaleik í bikarkeppni karla í handknattleik í gærdag.  Þrátt fyrir að mínir menn í Fram hafi tapað varð maður vitni af ótrúlegum atburðum.

 Um miðjan fyrri hálfleik lentu tveir leikmenn saman þannig að báðum blæddi.  Þegar búið var að fara með þá af velli og inn í klefa til frekari skoðunar varð enn frekari töf á leiknum.  Það voru engir starfsmenn á kústnum til að þrífa upp eftir óhappið þar sem mikið blóð var á gólfi.  Það var ekki fyrr en starfsmaður HSÍ við ritaraborðið stóð upp og fór að þrífa.  Það eru fleiri þúsund manns mættir í Höllina og ekki boðlegt að láta þá bíða því ekki séu starfsmenn á kústunum.  Ég hefu aldrei orðið vitni af slíku.

Svo í byrjun seinni hálfleik brutust út slagsmál meðal áhorfenda.  Þarna áttu stuðningsmenn Stjörnunnar alla sökina.  Öryggisgæsla var í húsinu sem ég veit svo sem ekki hverjir sáu um en virtust vera unglingar.  Þeir brugðust þó frábærlega við aðstöðum en björguðuð því sem bjargað varð.  Hins vegar sit ég stórt spurningarmerki við að HSÍ hafi ekki haft lögreglu á staðnum á stærsta íþróttaviðburði handboltans á ári hverju.

 Held að HSÍ þurfi virkilega að fara yfir sín mál þannig að þeir mörg þúsund áhorfendursem lögðu leið sína í Höllina,  þurfi ekki að bíða og horfa aðra eins vitleysu og fór þarna fram í gær.  Fyrir utan þá sem mættu á staðinn var leikurinn einnig sýndur í sjónvarpi.

 


Umfjöllun fjölmiðla

Hvert eru fjölmiðlar að leiða almenning í umræðunni um fyrirhugaða stækkun hjá Alcan.  Öll neikvæði fréttaumræða um stækkunina á svo greiða leið í fjölmiðla að maður verður að spyrja sig hvort fjölmiðlar séu almennt á móti stækkun eða málpípur einhverja hópa.  Kannski er það bara að besta söluvaran í fjölmiðlum séu neikvæðar fréttir, óritskoðaðar og aðeins önnur hlið málsins dregin upp.

Nýjasta dæmið núna er þegar stöð 2 ræðir við formann Sólar í straumi og í kjölfarið á skoðanakönnun í Blaðinu.  Þarna fær hann tækifæri til að hrauna yfir stækkunina og aumka sér yfir hvað hann og hans samtök eiga bágt.  Talsmenn og aðrir sem styðja stækkunina hafa ávallt lagt um að umræðan eigi að vera málefnaleg, þannig að almenningur geti myndað sér sínar skoðanir út frá réttum forsendum.

Mér verður gjörsamlega flökurt núna þegar ég sé auglýsinguna frá stöð 2 (Ísland í dag), þar sem starfsmenn þar lofa í hástert hvernig stöðin vinnur.  Hvet ykkur til að hlusta á hana og dæma svo út frá því.

Fólk á skilið málefnalega og sanngjarna umfjöllun frá fjölmiðlum.  Margir eru að borga stórfé á mánuði fyrir þetta og hvet ég því fjölmiðla og þá sérstaklega stöð 2 á taka sig á í þessum málum. 

  


Heimsóknir í álverið í Straumsvík

Nú er tækifærið

Álverið í Straumsvík býður nú fólki að koma að heimsækja álverið.  Tvær skoðanaferðir verða í viku, á fimmtudögum kl. 17 og svo á laugardögum kl. 14.  Ferðin tekur um klukkustund og endar með smá kynningu og kaffi. 

Ég skora á alla að nýta sér þetta tækifæri og sjá í raun og veru hvernig málum er háttað hjá fyrirtækinu.

 


Við erum líka fólk

Mikil umræða er í þjóðfélaginu um hugsanlega stækkun álversins í Straumsvík og uppbyggingu stóriðju á Íslandi. Menn hafa mjög misjafnar skoðanir á þessum málum og er öll málefnaleg umræða af hinu góða.  Mín skoðun er sú að hér ætti að hafa færri álver og styrkja þau sem fyrir eru og gera þau hagkvæm og arðbær.  Við þurfum einnig að spyrja okkur hvort við getum neitað fyrirtækjum að vaxa og dafna.  Hér er ekki verið að byggja nýtt álver heldur er verið að gera fyrirtæki með langa sögu kleift að vera samkeppnishæft á sínu sviði.

 Starfsöryggi stefnt í hættu

Menn hafa deilt á ýmsa þætti eins og umhverfismál, sjónræn áhrif verksmiðjunar og fleira.  Það sem hefur gleymst í umræðunni er fólkið sem vinnur nú hjá álverinu í Straumsvík.  Hvernig snúa þessi mál að þeim.  Jú, það er verið að kjósa um störf þeirra hvort sem þeim líkar betur eða verr.   Við stöndum frammi fyrir því hvort störf okkar og lifibrauð síðustu 40 ára verði tryggð til frambúðar.  Getum við réttlætt að stefna starfsöryggi 450 starfmanna álversins og velferð fjölskyldna þeirra í hættu.  Þeir sem eru á móti stækkun segja að verksmiðjan verði áfram og starfsfólk þurfi ekki að óttast um störf sín.  Það er hins vegar staðreynd að verksmiðjan er orðinn 40 ára gömul og ekkert sjálfgefið að svo gömul verksmiðja án stækkunar gangi vel ár eftir ár.  Margar forsendur eru fyrir því að hún gengur vel núna eins og hátt álverð á heimsmarkaði.  En hvernig vitum við hvernig staðan verður eftir nokkur ár?  Það er einnig staðreynd að Isal er með háan framleiðslukostnað á hvert framleitt tonn innan Alcan samsteypunnar og þarf því að stækka til að verða samkeppnishæf.   Orkusamningar Isal renna út árið 2014, eftir 7 ár og engin veit hvað gerist eftir það.  Að óbreyttu gæti þá lokun verksmiðjunnar blasað við. 

Góður vinnustaður

Margir hafa mjög ranga sýn á starfsemi Isal.  Þeir halda að starfsfólkið starfi við óviðunandi mengun allan daginn og óþrifalegar aðstæður.  Þetta er á miklum misskilningi byggt.  Það segir sig sjálft að starfsfólk myndi ekki vinna hjá Isal í 30 til 35 ár ef aðbúnaður starfsmanna væri ekki góður.  Nei, það myndi enginn láta bjóða sér.  Ástæðan fyrir því að fólk vinnur í Isal er sú að mikið er lagt upp úr góðum aðbúnaði fyrir starfsfólk.  Starfsmenn hafa  glæsilega búningklefa og sturtur.  Starfsfólk hefur kost á rútuferðum í vinnu án endurgjalds, frábæru mötuneyti sem býður upp á mikinn fjölbreytileika og vinnufatnaði sem Isal útvegar og þvær einnig.  Aðsókn í vinnu hja Isal væri ekki svona mikil sem raun ber vitni ef þessir hlutir væru ekki í lagi.Hér er einnig mikil aðsókn í sumarstörf.    Hjá Isal fá um 130 skólanemar vinnu á sumrin og komast ekki nærri allir að sem vilja.  Þessir skólakrakkar koma aftur og aftur.  Myndu þessir krakkar gera það ef þau upplifa að hjá Isal væri aðbúnaður og umhverfismál í ólestri.  Nei, ég held ekki. Mikil þekking er innan fyrirtækisins sem tekur langan tíma að byggja upp.  Með löngum starfsaldri innan fyrirtækisins hefur hún byggst upp.  Isal rekur Stóriðjuskóla þar sem verkamenn og iðnaðarmenn hafa kost á að mennta sig.  Nú hafa um 160 manns útskrifast og því langstærsti hluti starfsmanna hjá Isal menntað fólk.  Þessi skóli hefur byggt um mikla sérþekkingu innan Isal og enn eitt dæmið um metnað Isal til að ná langt og auka þekkingu innan fyrirtækisins.  

 Frábær árangur í umhverfismálum

Isal er vottað af umhverfisstaðlinum ISO 14001 eitt fárra fyrirtækja í þessu landi.  Hér er því mikið eftirlit með umhverfismálum bæði innan sem utan vinnusvæðis.  Þessi staðal krefst ekki eingöngu þess að við séum innan við ákveðin tilskilin mörk heldur krefst hann þess að við bætum okkur ár frá ári.   Upplýsingar um útblástur frá fyrirtækinu eru því staðreyndir en ekki tölur sem Isal getur búið til.  Margir hafa áhyggjur af mengun frá fyrirtækinu og umhverfismálin vega þungt þegar fólk myndar sér skoðanir.  Ég myndi skilja þessar áhyggjur ef þau væru í ólestri hjá fyrirtækinu sem þau eru alls ekki.  Einnig er verið að framleiða ál á eins vistvænan hátt og kostur er með orkugjöfunum sem við höfum hér á landi.  Ef við notun ekki orkuna hér, eykur það líkurnar á að álið verði framleitt með kolum og gasi sem orkugjöfum.  Það kallar á mun meiri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. 

Líka kosið um störf okkar

Þegar gengið verður að kjörborðinu þann 31.mars verður  ekki eingöngu kosið um stækkun Isal og fjölgun starfa og fleira.  Það er einnig verið að kjósa um  starfsöryggi okkar til frambúðar sem nú vinnum hjá Isal.  Setjið því ykkur í okkar spor þegar kosið verður um stækkun Isal.Við erum jú líka fólk. 

Sigurður Egill Þorvaldsson

starfsmaður Alcan á Íslandi

 

Greinin var birt í Morgunblaðinu í morgun.  

Góðir dagar framundan

Ekki er hægt að sleppa því að minnast á að Liverpool sló út Barcelona.  Það sem meira er að þeir áttu það skilið.  Voru miklu betri á Anfield þrátt fyrir að þeir töpuðu.  Gaman samt að sjá Íslendingin skora.

Það sem gleður mig samt enn meira er frábær sigur PSV á Arsenal.  Stór hópur vina minna eru Arsenalmenn og eru þeir fljótir til þegar Liverpool tapar.

 Það eru því góðir dagar framundan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurður Egill Þorvaldsson
Sigurður Egill Þorvaldsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband